Tekið af heimasíðu Akureyrarbæjar:
Á næstunni verður sérstökum ísskápsseglum með upplýsingum um viðmið um skjánotkun barna og unglinga dreift inn á öll heimili á Akureyri.
Það getur verið erfitt að hafa hemil á skjánotkun og þá er gott að geta horft til leiðbeinandi reglna sem unnar hafa verið af þeim sem láta sig málið varða.
Forsaga málsins er að 6. mars 2016 var haldið málþing um skjánotkun barna- og ungmenna. Að þinginu stóðu Samtaka – samtök foreldrafélaga á Akureyri, fulltrúar ungmennaráðs, fulltrúar forvarnarteymis og Samfélags- og mannréttindaráðs (nú Frístundaráðs) en þessir aðilar standa saman að útgáfu seglanna.
Markmiðið með þinginu var að móta sameiginleg viðmið um skjátíma barna og unglinga á Akureyri og var þar horft til góðs árangurs af útivistarreglum fyrir sama aldurshóp.
Leitað var svara við þeirri spurningu hvers vegna væri mikilvægt að hafa sameiginleg viðmið um hæfilegan skjátíma barna og unglinga í samfélagi okkar, og einnig hvaða viðmið um skjátíma eru hæfileg fyrir hvern aldurshóp.
Niðurstöðurnar eru kynntar á seglunum sem dreift verður inn á hvert heimili í bænum.
Viðmiðin geta gagnast jafnt börnum, ungmennum sem og fullorðnum því flest þekkjum við þá tilfinningu að eyða óhóflegum tíma fyrir framan skjá. Gengið er út frá því að fullorðnir sýni gott fordæmi.