Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Eineltisáætlun

Aðgerðaráætlun gegn einelti
Glerárskóli

Stefnuyfirlýsing

Starfsfólk Glerárskóla lýsir því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verður liðið í skólanum. Leitað verður allra leiða til að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Glerárskóli á að vera öruggur vinnustaður, bæði fyrir starfsfólk og nemendur, þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju. Starfsfólk skólans skal vera nemendum fyrirmynd í framkomu við aðra og skal nemendum skólans markvisst vera kennd góð samskipti frá skólabyrjun. Nemendur skulu vera hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og öðru ofbeldi með því að bregðast við með því að hjálpa og láta vita. Gera skal nemendum grein fyrir því að það að skilja útundan og virða ekki viðlits er jafn mikið einelti og að stríða eða berja.

Unnið er með einelti í Glerárskóla samkvæmt eineltisáætlun Olweusar, samhliða stefnu skólans um Jákvæðan aga.

 

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Hér í Glerárskóla er ýmislegt gert til þess að fræða nemendur og starfsfólk um einelti og afleiðingar þess. Meðal þess sem gert er:

 • Fræðsla inn í hverjum bekk reglulega.
 • Fræðsla fyrir starfsfólk reglulega. Umræðufundir.
 • Hver bekkur er reglulega með bekkjarfundi þar sem eineltismál eru rædd ásamt öðru.
 • Tengslakannanir eru lagðar fyrir tvisvar á vetri, í október og febrúar.
 • Stór eineltiskönnun er lögð fyrir nemendur í 5.-10. bekk í nóvember/desember.
 • Hver bekkur gerir bekkjasáttmála að hausti.
 • Kennarar skrá í Mentor ef eitthvað kemur upp á í skólanum.
 • 8.bekkur sér eineltismyndband og tekur þátt í umræðum með námsráðgjafa.
 • Niðurstöður eineltiskönnunar Olweus eru kynntar nemendum í 5.-10.bekk

Ásamt fleiru.

Hvað er einelti?

Talað er um einelti þegar einstaklingur verður aftur og aftur fyrir neikvæðu og óþægilegu áreiti frá einum eða fleiri eintaklingum og viðkomandi á erfitt með að verja sig. Áreitið/einelti þarf að hafa staðið yfir í ákveðinn tíma eða a.m.k. 2-3x í mánuði. Einelti getur bæði verið beint og óbeint. Þegar talað er um beint einelti er átt við t.d. högg, spörk, blótsyrði, niðurlægjandi og háðslegar athugasemdir og hótanir af einhverju tagi. Óbeint einelti er t.d. útilokun, hunsun, illt umtal og að aðrir komi í veg fyrir að einstaklingur eignist vini. Vert er að taka fram að óbeint einelti getur alveg verið jafn slæmt og beint einelti.

 • Líkamlegt einelti
 • Munnlegt einelti
 • Tilfinningalegt einelti
 • Neteinelti

Það er ekki formið sem skiptir máli heldur hvaða áhrif eineltið hefur á einstaklinginn sem verður fyrir því.

Taka skal fram að ekki er litið á góðlátlega stríðni milli jafningja og félaga sem einelti. Það er heldur ekki einelti ef tveir jafn sterkir einstaklingar takast á eða kíta.

Möguleg einkenni eineltis

Einkenni eineltis geta verið mjög ólík milli einstaklinga. Sumir fá einungis eitt einkenni meðan aðrir fá mörg. Hér eru nokkur einkenni sem geta komið í ljós þegar barn verður fyrir einelti. Listinn er alls ekki tæmandi.

 •       Breytingar á skapi barns, jafnvel hegðunarerfiðleikar og þunglyndi.
 •       Tíður grátur, þarf lítið til að barnið fari að gráta.
 •       Svefntruflanir.
 •       Breyttar matarvenjur. Getur bæði verið ofát eða lystarleysi.
 •       Lítið sjálfstraust, hræðsla og/eða kvíði.
 •       Barnið kvartar mikið yfir líkamlegum kvillum eins og magaverk eða höfuðverk.
 •       Barnið virðist einangrað og einmana.
 •       Barnið er mikið eitt í skólanum, bæði í frímínútum og inni í kennslustofu.
 •       Barnið hræðist að fara eitt í og úr skóla.
 •       Barnið skrópar í skólanum.
 •       Barnið mætir oft of seint í skólann.
 •       Einbeitingarörðugleikar fara að gera vart við sig og einkunnir lækka.
 •       Barnið einangrar sig frá skólafélögum.
 •       Barnið neitar að fara í skólann.
 •       Rifin föt eða skemmdar eigur.
 •       Líkamlegir áverkar sjást á barninu.

Viðbrögð við einelti

Starfsfólk

Ef grunur vaknar um einelti skal starfsfólk skólans fylla út viðeigandi tilkynningaeyðublað og afhenda eineltisteymi skólans. Þaðan er upplýsingum um næstu skref komið til umsjónarkennara þolanda sem tekur málin í sínar hendur, í samvinnu við umsjónarkennara geranda, og unnið er eftir ákveðnu vinnuferli. Eineltisteymið er alltaf innan handar og aðstoðar við vinnslu máls. Ef ekki finnst lausn á vandanum skal málinu vísað formlega til Nemendaverndarráðs og þaðan til utanaðkomandi aðila ef þurfa þykir (sjá mynd – Vinnuferli í eineltismálum). Eftirfylgni mála er í höndum námsráðgjafa og deildarstjóra (eineltisteymis).

Nemendur

Ef nemendur verða vitni að einelti eða eru hugsanlega lagðir í einelti eiga þeir að láta umsjónarkennara, eineltisteymi, annað starfsfólk skólans eða foreldra sína vita.

Foreldrar

Ef grunur vaknar um meint einelti skal foreldri umsvifalaust tilkynna málið (tilkynningablöð má nálgast hér)  til umsjónarkennara eða eineltisteymis sem setur ákveðið vinnuferli í gang.

Eineltisáætlun Glerárskóla – ferlið

Viðbrögð skólans og vinna með bekk/árgang

Vinnsluferli eineltismála

Vinnuferli í eineiltismálum – eyðublað

Tilkynning – grunur um einelti – eyðublað