Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Sérkennslustefna Glerárskóla

Í Glerárskóla er lögð áhersla á að vinna í anda stefnunnar um skóla án aðgreiningar. Í 17. grein laga um grunnskóla frá árinu 2008 kemur fram að allir nemendur eigi rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar. Þessu er fylgt eftir í aðalnámskrá grunnskóla með stefnunni um skóla án aðgreiningar þar sem gengið er út frá því að allir fái jöfn eða jafngild tækifæri til náms og að námið sé á forsendum hvers einstaklings. Stefnan skóli án aðgreiningar gerir ráð fyrir að allir nemendur á grunnskólaaldri hafi rétt til að vinna að námsmarkmiðum sínum sem virkir þátttakendur í námsumhverfi sem heimaskólar skapa nemendum sínum. Jafnframt eiga nemendur að hafa lýðræðislegan rétt til að koma með óskir og hafa áhrif á það hvernig stuðningi við þá er háttað.

Þjónusta stoðteymis Glerárskóla felur í sér samvinnu og ráðgjöf bæði við nemendur og starfsfólk skólans. Stoðteymi Glerárskóla leggur sig fram við að byggja upp námsumhverfi skólans þannig að allir nemendur séu þátttakendur þar sem fjölbreytileiki er eðlilegur og eftirsóknarverður. Sú vinna felur aðallega í sér breytingu, miðað við bekkjarnámskrá, á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum. Stoðteymið aðstoðar nemendur við að vinna eftir einstaklingsmiðuðum náms- og stundaskrám eftir þörfum þar sem þeir hafa jafnframt kost á því að takast á við verkefni með jafnöldrum í gegnum fjölbreytta kennsluhætti í öllum fögum skólans. Sérúrræði fyrir nemendur fara ýmist fram einstaklingslega, í pörum eða smærri hópum en einnig inni í heimabekk, allt eftir þörfum hverju sinni.

Að vori skila umsjónarkennarar tilvísunum til stoðteymis með óskum um aðstoð vegna náms-, tilfinninga- eða hegðunarvanda. Þær tilvísanir eru teknar fyrir strax að hausti í skólabyrjun þar sem stoðteymið skiptir á milli sín verkefnum og teymisstjórn yfir nemendum sem á þurfa að halda. Einnig er stöðugt og markvisst unnið að því að finna og vinna sérstaklega með börnum sem eru í áhættuhópi vegna náms- og viðvarandi hegðunarerfiðleika. Það er gert með skimunum, snemmtækri íhlutun og samvinnu við umsjónarkennara, foreldra og ráðgjafa frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar. Þegar upp kemur vandi hjá einstökum nemendum/börnum eða námshópum er lögð áhersla á að vandinn sé skilgreindur og úrræði valin í samræmi við niðurstöður greiningar. Í allri vinnu stoðteymisins er lögð áhersla á að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir og að nemendur séu sjálfstæðir, taki ábyrgð á námi sínu, nálgist viðfangsefni í gegnum áhugasvið sín en hafi jafnframt tækifæri til að hafa áhrif á kennsluhætti og námsumhverfi.

Stoðteymið fundar einu sinni í viku og oftar eftir þörfum.