Rýming Glerárskóla var æfð í morgun en klukkan 8.20 glumdi brunabjalla og við tók æfing sem gekk fumlaust fyrir sig, enda veit starfsfólk skólans og flestir nemendur hvernig á að bregðast við í þeim aðstæðum.
Í skólanum eru haldnar rýmingaræfingar tvisvar á skólaárinu, að hausti og vori. Á haustin er tilkynnt um æfingarnar fyrir fram en svo er ekki með æfinguna sem haldin er að vori.
Það er mjög mikilvægt að æfa réttu viðbrögðin svo hægt sé að rýma skólann hratt og örugglega komi upp eldur eða önnur vá. Einnig er nauðsynlegt að tryggja á óyggjandi hátt að allir nemendur skólans hafi yfirgefið bygginguna en í rýmingaráætlun skólans er ákveðið kerfi sem ætlað er að koma í veg fyrir að einhver nemandi verði eftir í byggingunni eftir að hún hefur verið yfirgefin.