Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Þrettándinn

Nú er skólastarfið komið í fastar skorður eftir jólaleyfi enda jólin bráðum búin. Í dag er þrettándinn, síðasti dagur jólahátíðarinnar. Kertasníkir, síðasti jólasveinninn, er búinn að pakka niður og í kvöld heldur hann til síns heima, hvar svo sem þau eru.

Margs konar þjóðtrú tengist þrettándanum. Álfar flytja búferlum á þessum degi og kýr taka upp á því að tala mannamál en hættulegt gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er meðal annars þessa sögn að finna: Á nýársnótt verða margir hlutir undarlegir. Það er eitt að kýr mæla þá mannamál og tala saman. Einu sinni lá maður úti í fjósi og á nýársnótt til þess að heyra hvað kýrnar töluðu. Hann heyrir þá að ein kýrin segir: „Mál er að mæla.“ Þá segir önnur: „Maður er í fjósi.“ „Hann skulum vér æra,“ segir þriðja kýrin. „Áður en kemur ljósið,“ segir hin fjórða. Frá þessu gat maðurinn sagt morguninn eftir, en ekki fleiru því kýrnar höfðu ært hann.

Þrettándinn hét upphaflega opinberunarhátíð og hefur verið tengdur ýmsum kristnum trúaratburðum, svo sem skírn Krists og Austurlandavitringunum.  Víða um lönd er sá siður við líði að börn fái gjafir frá vitringunum þremur á þrettándanum. Siðurinn er upphaflega frá Spáni en hefur borist til fleiri landa, til dæmis Bretlands og Bandaríkjanna.