Fjörmiklar og merkilegar umræður fóru fram Hamraborg í Hofi í síðustu viku en þar var haldið Stórþing ungmenna á Akureyri. Þátttakendur ræddu um flest sem hefur áhrif á daglegt líf þess í bænum. Ótal hugmyndir voru reifaðar, hvort heldur sem rætt var um tómstundastarf ungmenna, skólastarfið, andlega líðan eða orðræðu á samfélagsmiðlum svo eitthvað sé nefnt. Áherslur í umræðunum voru valdar eftir samtal Ungmennaráðs Akureyrarbæjar við nemendaráð skóla í bænum.
Þátttakendur voru börn og ungmenni á aldrinum 12-17 ára, þ.e. frá 7. bekk og upp í þriðja bekk í framhaldsskóla. Glerárskóli átti 19 fulltrúa á þinginu úr 7.-10. bekk jafnt drengi og stúlkur. Nemendur Glerárskóla tóku virkan þátt í umræðunum og af tíu umræðustjórum voru fimm úr Glerárskóla sem stóðu sig með afbrigðum vel.
Stórþingið er vettvangur fyrir börn og ungmenni í sveitarfélaginu til þess að koma á framfæri sínum hugmyndum þjónustuna sem sveitarfélagið býður upp á og ræða málefni sem brenna á þeim m.a. út frá fyrir fram ákveðnum umræðupunktum. Markmiðið er að fanga hugmyndir og skoðanir barna og ungmenna í sveitarfélaginu, kortleggja þær og koma áleiðis inn í stjórnsýsluna. Stórþingið er því stefnumótandi verkfæri fyrir sveitarfélagið og verða niðurstöðurnar notaðar í áframhaldandi vinnu, s.s. fyrir verkefnið Barnvænt sveitarfélag.
Myndin með þessari frétt er fengin af akureyri.is.