Á mánudaginn þann 22. janúar er skipulagsdagur í Glerárskóla og þá eru nemendur heima. Á starfsdeginum situr starfsfólk skólans fræðslufundi og kennarar leggja síðustu hönd á undirbúning sinn fyrir foreldraviðtölin sem fram fara á þriðjudag og miðvikudag, 23. og 24. janúar.
Foreldraviðtölin eru nemendastýrð að þessu sinni. Við gerðum tilraun með nemendastýrð foreldraviðtöl á síðasta ári sem mikil ánægja var með og því var ákveðið að halda þeim áfram.
Nemendastýrðu foreldraviðtölunum er ætlað að virkja og valdefla nemandann og auka trú hans á eigin getu. Markmiðið er að nemandinn geti haft áhrif á og tjáð sig um nám sitt, viti hvar hann er staddur, hvert hann stefnir og hvað er góður árangur.
Forráðamenn nemenda hafa þegar bókað tíma hjá umsjónarkennurum barna sinna. Gert er ráð fyrir því að hvert viðtal taki 30 mínútur og túlkaþjónusta er í boði fyrir þá sem á því þurfa að halda.