Það var sérlega gestkvæmt hjá fjórða bekk í hádeginu á föstudaginn. Þá komu forráðamenn nemenda í heimsókn því það stóð mikið til hjá krökkunum. Dagana og vikurnar á undan höfðu þau æft sig samviskusamlega fyrir Litlu upplestrarkeppnina, sem reyndar er ekki keppni heldur skemmtun, þar sem öruggur og skýr upplestur nemenda gleður þá sem til heyra.
Krakkarnir fluttu tvær þulur og lásu ýmist ein eða í félagi við aðra, auk þess sem þeir brustu i söng og fluttu Glerárskólasönginn.
Krakkarnir stóðu sig með afbrigðum vel og buðu forráðamönnum sínum í kaffi og með því að dagskrá lokinni.
Munið, þessi vika verður óvenjuleg hjá okkur í Glerárskóla, þriðjudagur og miðvikudagur eru þemadagar og þá lýkur skólastarfi kl. 12.00 en frístund verður opin fyrir þau börn sem eiga vistunartíma þessa daga. Fimmtudagurinn er sumardagurinn fyrsti og þá er skólafrí. Á föstudaginn er skipulagsdagur, þá er engin kennsla og frístund er lokuð.