Í morgun hleypti Mennta- og menningarmálaráðuneytið af stokkunum skemmtilegu lestrarverk-efni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.
Verkefnið kallast Tími til að lesa og á vel við þar sem margir hafa nú meiri tíma en áður til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri. Fólk er hvatt til að skrá sig inn á vefsíðuna timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum munu þar safnast upp ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa, hvatningarmyndbönd frá rithöfundum og öðrum sem segja okkur hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.
Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu verður þess freistað að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. Slíkt hefur ekki verið gert áður og því yrði hér um að ræða fyrsta heimsmet sinnar tegundar. Metið gæti orðið viðmið annarra þjóða, eða okkar sjálfra til að bæta með tíð og tíma.