Fyrr í vetur náum við mynd af rosabaug um tunglið. Rosabaugur um sólu er algengara náttúrufyrirbæri og einn þeirra birtist í blíðunni laugardaginn fyrir páskana. Meðfylgjandi mynd er einmitt af honum.
Rosabaugur myndast þegar sólin skín í gegnum þunna skýjabreiðu (oftast bliku) sem er hátt á himni. Hún inniheldur ekki vatnsdropa, heldur ískristalla, því það er yfirleitt frost svona hátt uppi.
Blika er ein tegund háskýja og myndast í 6–12 km hæð. Þetta er þunn eða hálfgegnsæ, samfelld háskýjabreiða sem þekur oft stóran hluta himins.
Bliku fylgja oft veðrabrigði og þá gjarnan með úrkomu. Þaðan eru komin orðatiltækin „mér líst ekki á blikuna“ og „það eru blikur á lofti“.
Blikan sem myndaði rosabauginn fyrir páska var því hugsanlega forboði páskahretsins sem skall á fáum dögum síðar.