Undirbúningur fyrir upplestrarátakið UPPHÁTT hófst hjá okkur í Glerárskóla í morgun. Upphafið er tengt degi íslenskrar tungu sem í ár bar upp á helgi.
Átakinu er beint að nemendum í 7. bekk sem nú æfa upplestur sem aldrei fyrr. Þann 18. mars næstkomandi verður blásið til sannkallaðrar upplestrarhátíðar en þá keppa tveir fulltrúar hvers grunnskóla á Akureyri sín á milli um snjallasta upplesturinn.
Við setningarhátíðina í morgun ávarpaði Eyrún Skúladóttir nemendurna, flutti ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og ræddi um mikilvægi lesturs og tjáningar.
Nemendurnir sem kepptu fyrir hönd Glerárskóla í Upphátt á síðasta ári lásu ljóð fyrir skólasystkini sín, hátt snjallt og vel.