Námstækni
-fyrir efstu bekki grunnskóla-
_____________________________________
Að skipuleggja tíma sinn
Dagbók er mikilvægt hjálpartæki fyrir þá sem vilja skipuleggja tíma sinn vel. Því fleiri minnisatriði sem þú skráir í dagbókina því betur gengur þér að hafa yfirsýn yfir verkefnin sem þarf að vinna og eru framundan. Ef þér hættir til að fresta verkefnum og sleppa því að læra heima getur þú bætt stöðu þína með því að nota dagbókina vel og skipulega. Það tryggir að þú vitir hvað þú átt að læra. Ef þú venur þig á að merkja við það sem þú ert búin/n að vinna, færðu góða yfirsýn yfir það hverju þú hefur lokið og hvað á eftir að gera. Venjir þú þig á að skrifa allt niður og ljúka heimavinnunni hjálpar það til við að vinna gegn streitu og kvíða sem oft fylgir því að ljúka ekki við heimaverkefni. Því fylgir vellíðan að ljúka við tiltekin verefni.
Þegar mikið er að læra heima er oft erfitt að koma sér að verki. Oft getur hjálpað að búta niður efnið og byrja á einhverjum hluta þess. Þá kemur dagbókin sér vel! Ef mikið er að læra heima þarf að forgangsraða. Þá setur þú fremst það sem þú mátt síst dragast aftur úr eða það sem þér finnst vera mikilvægast.
Mundu samt að þú ert að læra heima fyrir sjálfa/n þig en ekki kennarann eða skólann.
Minni, gleymska og galdurinn við góða einbeitingu
Námsmenn þurfa iðulega að leggja á minnið ýmislegt sem ekki vekur endilega neinn sérstakan áhuga þeirra. Því er nauðsynlegt að kunna aðferðir til að festa í minninu atriði sem við þurfum að muna, kunna og geta gert grein fyrir, ýmist munnlega eða skriflega. Allir kunna einhverjar slíkar aðferðir og nýta þær, t.d. að strika undir eða merkja við mikilvæg atriði í námsbók. Slíkt er þó gagnslítið nema ef við notum það sem við merktum við og lítum yfir það aftur til að festa það í minninu.
Upprifjun er mikilvægasta hjálpartækið þegar við þurfum að festa atriði í langtímaminninu. Árangursríkast er að rifja ný atriði upp strax daginn eftir að við höfum lært þau. Síðan þarf að rifja atriðin upp með reglulegu millibili og eftir því sem þau lærast betur getur upprifjunin verið sjaldnar og styttri tíma í einu.
Ýmsar aðferðir hjálpa þér við að festa atriði í minninu og sumar þeirra má líka nota við upprifjun.
- Tengja það sem þú lærir við eitthvað sem þú þekkir eða hefur lært.
- Gefa þér tíma til að íhuga það sem þú hefur lært.
- Ræða við aðra um að sem þú hefur lært.
- Fá einhvern til að hlýða þér yfir.
- Skrifa niður glósur úr námsefninu eða í kennslustundum.
- Nota verkefnablöð.
- Skrifa útdrætti úr bókarköflum.
Þetta og margt fleira er hægt að gera og mikilvægt að hver og einn finni aðferð sem hentar honum best.
Góð einbeiting byggir bæði á góðum ytri aðstæðum og andlegu og líkamlegu ástandi okkar. Ef við þurfum að einbeita okkur að flóknu verkefni og viljum geta lært og munað þarf umhverfið að vera rólegt og truflanir litlar. Einnig er mikilvægt að við reynum að hugsa jákvætt og vera bjartsýn því þá líður okkur betur andlega. Góð einbeiting í kennslustundum sparar námsmönnum tíma og stuðlar að því að þeir læri ný atriði fyrr. Þú getur stuðlað að góðri einbeitingu í kennslustund með því að einsetja þér að hlusta á kennarann með jákvæðu hugarfari, taka þátt í umræðum um námsefnið og spyrja spurninga. Forðastu að spjalla of mikið við bekkjarfélaga, gleyma þér við dagdrauma, teikna myndir eða hlusta á tónlist í laumi.
Lestur
Langbest er að lesa námsefnið jafnóðum eða ef til dæmis um lestur bókmennta er að ræða að lesa strax í byrjun alla bókina. Þá virkar oft yfirferð kennara og verkefnavinnan betur og verður eins og upprifjun fyrir nemandann. Þegar þú þarft að lesa námsefni getur þú notað aðferðir sem hjálpa þér við að muna textann.
- Líttu yfir efnið eða kaflann áður en þú byrjar að lesa og athugaðu vel um hvað hann er, lestu fyrrisagnir og texta við myndir.
- Farðu vel yfir spurningar sem hugsanlega fylgja áður en þú lest yfir.
- Lestu vel yfir efnið í smáskömmtum. Eftir hverja grein eða klausu sem þú lest skaltu endursegja efnið með þínum eigin orðum.
- Lestu aftur yfir klausuna og merktu við aðalatriðin, t.d. með því að strika undir eða skrifa niður minnispunkta á blað um aðalatriðin.
- Þegar þú ert búin að lesa vel yfir allan textann á þennan hátt, svaraðu þá spurningum og leystu þau verkefni sem fylgja.
- Loks skaltu líta yfir efnið eða kaflann sem þú last og rifja upp helstu atriði. Skoðaðu minnispunkta, undirstrikanir eða spurningar sem þú bjóst til.
Mundu að halda athyglinni vel vakandi þegar og meðan þú ert að lesa yfir og hafðu rólegt í kringum þig.
Að skrifa glósur
Glósur eru gerðar í þeim tilgangi að auðvelda námsmanni að muna námsefnið. Góðar og vel skipulagðar glósur geta því verið gott hjálpartæki við námið, þær flýta fyrir upprifjun og oft er efnið flokkað á skipulegan hátt í góðum glósum. Vendu þig á að skrifa glósur hratt og örugglega og sæmilega skýrt þannig að þú getir lesið þær. Ekki eyða tíma í að hreinskrifa þær. Notaðu skammstafanir til að flýta fyrir. Það er lykilatriði að lesa glósurnar yfir.
Það skilar bestum árangri ef þú lest þær innan sólarhrings frá því að þú skrifaðir þær.
Að skrifa ritgerð
Þjálfun í ritun texta er afar mikilvæg, bæði hvað varðar nám og störf.
Skipta má ritunarferlinu í þrjú stig:
- Undibúningsvinnu
- Ritun frumdraga
- Hreinritun eða fullvinnslu texta.
Ef þú ætlar að skrifa langa ritgerð er gott að byrja á því að gera tímaáætlun eða vinnuskipulag. Þá skiptir þú vinnunni niður á daga, hugsanlega vikur ef verkið er umfangsmikið. Hér er smá yfirlit yfir það sem er gott að gera:
- Finna lesefni sem tengist ritgerðarefninu bæði heima, á bókasafni eða á netinu.
- Lesa um efnið.
- Safna hugmyndum.
- Velja úr þeim hugmyndum sem komu fram.
- Afmarka efni ritgerðarinnar.
- Velja vinnuheiti.
- Gera efnisgrind eða beinagrind yfir þætti sem fjallað verður um.
- Gera uppkast.
- Yfirfara og endurbæta.
- Lesa vandlega yfir og huga að uppsetningu og frágangi.
Prófundirbúningur og próftaka
Góður prófundirbúningur hefst strax að hausti þegar skólinn hefst. Nemandi sem vinnur vel og skipulega og jafnt og þétt yfir veturinn er í raun aðeins að rifja upp námsefnið þegar hann er að undirbúa sig fyrir próf. Fyrsta skrefið að undirbúningum er að vita hvað á að læra fyrir próf. Tryggja að þú vitir með góðum fyrirvara úr hvaða efni verði prófað og fá upplýsingar um sérstakar áherslur. Næsta skref er að finna allt það efni sem tilheyrir hverri grein. Þú þarft að taka til námsbækur, ritgerðir, verkefni, útdrætti og spurningar sem þú átt. Ef þig vantar eitthvað inní efnið t.d. vegna veikinda eða leyfis, skaltu útvega þér það.
Athugaðu vel próftöfluna og hversu langan tíma þú hefur fyrir hvert próf. Skoðaðu það einnig í samhengi við hversu mikið efni á að vera til prófs. Gerðu vinnuáætlun, mundu eftir að gera ráð fyrir hléum, matartímum og hvíld. Tíminn sem fer í prófundirbúning er krefjandi og þess vegna er mikilvægt að allar aðstæður stuðli að því að þú getir einbeitt þér og tileinkað þér efnið.
Gættu þess að vera með hugann við efnið sem þú ert að lesa. Þegar þú ert búin að lesa kafla eða hluta úr kafla er gott að staldra við og gefa sér tíma til að hlýða sér yfir eða renna yfir textann aftur til að pæla í honum. Stundum er gott að láta hlýða sér yfir og breyta þannig til eða segja einhverjum á heimilinu frá því sem þú varst að lesa.
Á prófdag er mikilvægt að vakna snemma, fá sér morgunmat og slaka vel á. Taka saman öll þau gögn sem þarf að hafa með í prófið. Gott er að mæta tímanlega í prófið en þó ekki of snemma og forðastu að ræða við skólafélagana um hvað þú kannt og kannt ekki í efninu, það leiðir oft til spennu og kvíða. Veldu þér góðan stað í stofunni, hlustaðu vel á fyrirmæli og lestu þau einnig vandlega sem eru á prófblaðinu. Merktu við spurningar sem þú hefur sleppt eða geymt og passaðu að svara þeim síðar. Einbeittu þér við próftökuna og nýttu tímann vel. Ef þú hefur tíma í lokin skaltu lesa yfir og athuga sérstaklega vel flóknar spurningar. Láttu ekki truflast þó aðrir nemendur fari úr stofunni.
Að vinna gegn prófkvíða
Flestir finna fyrir spennu fyrir próf og þannig á það að vera. Ef engin streita er fyrir hendi er ekki líklegt að hámarksárangri sé náð, það er til streita sem er nauðsynleg til að halda úti “baráttuanda”. Kvíði vegna próftöku getur hinsvegar orðið það mikill að hann dragi úr árangri og leiði af sér mikla andlega og líkamlega vanlíðan. Algengasta ástæða prófkvíða er sú að nemandi finnur sig óöruggann varðandi efnið. Áhrifaríkasta leiðin til að draga úr kvíða er að vinna vel yfir veturinn. Gott skipulag við prófundirbúning er önnur leið til að draga úr spennu og kvíða. Jákvæð hugsun og að tala við sjálfan sig á jákvæðan hátt er öflug leið til að vinna gegn kvíða. Hugsun okkar hefur áhrif á líðan. Góð slökun fyrir próf og á meðan á undirbúningi stendur er einnig gagnleg.
Jákvætt hugarfar
Hugarfar hefur mikil áhrif á líðan þína. Reyndu að tileinka þér jákvætt hugarfar gagnvart námsgreinum, kennurum, skólanum og sjálfum þér sem námsmanni. Ef þú lendir í útistöðum við kennara skaltu reyna að stíga skref í þá átt að leysa málið. Ef þér finnst kennari sýna þér ósanngirni eða beita þig rangindum skaltu ræða það við kennarann sjálfan, foreldra, skólastjóra, námsráðgjafa eða einhvern sem getur leiðbeint þér. Ef námsgrein pirrar þig eða þér finnst þú eiga í erfiðleikum með hana skaltu á sama hátt reyna að vinna að lausn sem leiðir til betri árangurs. Þú verður að einsetja þér að yfirstíga erfiðleikana og hugsa um að þú ætlir að ná tökum á greininni. Síðast en ekki síst veriðu þú að hafa trú á hæfileikum þínum og getu til að takast á við nám.
Að setja sér markmið
Ef þú þarft að lagfæra marga þætti í námi þínu krefst það mikils undirbúnings. Þá er ráðlegt að setja niður á blað hvaða þætti er æskilegast að laga og raða svo í forgangsröð. Oft er ágætt að verðlauna sjálfan sig ef vel hefur tekist en ef illa hefur gengið þarf að endurskoða markmiðin og hugsa jákvætt og horfast í augu við að allir geta gert mistök og mistök eru til þess að læra af þeim. Mikilvægt er að við leyfum okkur að gera mistök og lítum á það sem leið til frekari endurbóta. Það hjálpar oft ef þú sem unglingur ert búinn að gera þér hugmyndir hvað það er sem þú vilt í framtíðinni. Þá er auðveldara að sjá tilgang með skólagöngu sinni og hjálpar einnig til við að setja sér markmið. Vangaveltur af þessu tagi gefa lífinu ákveðinn tilgang og hið sama gildir um langtímamarkmið og markmið sem sett eru til styttri tíma.
Sjálfstæð vinnubrögð og ábyrgð á eigin námi
Fátt er jafn pirrandi fyrir marga unglinga og þegar foreldrarnir spyrja hvort viðkomandi er búinn að læra heima. Sumum finnst kannski felast í henni ákveðið vantraust á að námsmaðurinn sé ábyrgur gjörða sinna. Trúlegast er þó að spurningin feli í sér umhyggju foreldranna. Ef þú vilt ekki fá þessa spurningu á hverjum degi ættir þú að semja við foreldra þína um það að þau hætti að spyrja og í staðinn látir þú þau vita þegar þú ert búin/n að læra. Þar með tekur þú ábyrgðina sjálf/ur og verður bæði sjálfstæður og ábyrgur námsmaður. Sjálfstæður og ábyrgur námsmaður leitar sér aðstoðar þegar hann þarf á að halda. Ef hann nær ekki nógu góðum tökum á náminu, ræðir hann við kennara sinn. Einnig er hægt að leita eftir stuðningi hjá foreldrum, eldri systkinum eða jafnöldrum sem gengur vel. Vertu einnig ófeimin/n við að leita til námsráðgjafa sem getur aðstoðað þig við að skoða sjálfa/n þig sem námsmann og jafnframt getur þú rætt við námsráðgjafa um hugmyndir þínar í framtíðinni. Nokkur lykilatriði eru til sem ábyrgur og sjálfstæður námsmaður hefur að leiðarljósi:
- Vinnur heimavinnu.
- Leitast við að þekkja styrkleika sína.
- Leitar sér aðstoðar, ef á þarf að halda.
- Mætir vel í skólann.
- Hlustar vel á kennarana.
- Forðast neikvæðar hugsanir.