Nemendur í níunda bekk eru þessa dagana að læra um líkamann, þetta flókna furðuverk. Um daginn fengu þau einstakt tækifæri til þess að skoða hvernig líffærin eru byggð upp og hvernig þau virka.
Sumum varð reyndar ekki um sel þegar kennarinn mætti með lungu hjörtu og nýru úr svínum. Verkefni dagsins var að kryfja líffærin og skoða uppbyggingu þeirra. Krakkarnir unnu í hópum og var gert að taka upp myndband þar sem verkferli þeirra var skrásett en krakkarnir áttu meðal annars að sýna æðakerfi hjartans og gera grein fyrir því hvernig það virkar. Þau áttu einnig að útskýra hlutverk lungnanna og sýna að barkinn leiðir innöndunarloft til lungnanna og hvernig þau þenjast út við öndun.
Öll gengu þau ákveðin og fumlaus til verka og hugsanlega verður þessi kennslustund til þess að einhver nemandinn leggi fyrir sig læknis- eða hjúkrunarfræði, já eða stefni að því að verða meinafræðingur. Þessum krökkum standa allar dyr galopnar og framtíðin er full af tækifærum!
Hér má sjá myndir frá krufningunni.