Nýlokið er lestrarátaki í Glerárskóla. Markmið þess var að fá nemendur til að velja sér bók sem ögraði þeim, bók sem var þykkari og aðeins erfiðari en þau lesa alla jafna. Bók sem þau lásu ekki á nokkrum mínútum heldur voru nokkra daga að klára.
Þegar lokið var við bók fékk lestrarhesturinn „kjöl“ sem viðkomandi fyllti út með nafni bókarinnar sem var lesin og nafni höfundar. Á gangi skólans voru settar upp „hillur“ undir bókarkilina og þegar líða tók á átakið fóru hillurnar að fyllast hver af annarri hjá nemendum á yngsta- og miðstigi. Hillur nemenda á unglingastigi og hillur starfsfólks eru ansi tómlegar.