Það var heilmikið stuð hjá nemendum á miðstigi síðastliðinn föstudag. Þá fengu þau að kynnast langspilinu, íslenska strokhljóðfærinu en heimildir eru um notkun þess frá 18. öld.
Eyjólfur Eyjólfsson, þjóðfræðingur og söngvari, kom í heimsókn til okkar og var eina kennslustund með hverjum bekk miðstigsins. Hann kynnti hljóðfærið og sögu þess og síðan fengu allir að spila á langspil og merkilegt nokk, börnin voru ansi fljót að ná tökum á hljóðfærinu.
Áður en kennslustundunum lauk hljómaði skemmtilegt samspil um stofuna, þar sem strengir langspilsins voru ýmist slegnir með voldugri álftafjöður en stroknir með þar til gerðum boga.