Krakkarnir í 1. og 2. bekk hafa verið að læra kínversku í haust. Í 13 vikur kemur kennari í heimsókn sem kennir þeim kínversku í gegnum leik og söng. Þessar kennslustundir þykja spennandi og skemmtilegar.
Nú í vikunni kom kínversk sendinefnd í heimsókn til krakkanna, fulltrúar frá Ningbo háskólanum í Kína ásamt Magnúsi Björnssyni forstöðumanni Konfúsíusarstofnunarinnar.
Vel fór á með sendinefndinni og krökkunum sem meðal annars sungu lagið sívinsæla „Höfuð, herðar, hné og tær“ með kínverskum texta sem sannarlega féll í kramið hjá gestunum.