Í dag fengum við heimsókn í myndlistatíma í tilefni Dags myndlistar í októbermánuði. Til okkar kom Jónborg Sigurðardóttir – Jonna. Hún var með nokkur sýnishorn verka sinna, sagði frá þróun myndlistar sinnar frá því hún lauk námi og hugmyndum að baki verkanna. Þetta eru mjög fjölbreytt verk skapandi einstaklings sem lætur engan segja sér hvað má gera heldur framkvæmir sínar hugmyndir óhikað. Jonna hefur öðru fremur vakið athygli á matarsóun og mengun í umhverfinu, ekki síst plastnotkun og falla þessar áherslur vel að viðfangsefnum og nálgun skólans varðandi Grænfánaverkefnið. Nemendur 9. og 10. bekkja fengu að njóta kynningarinnar og fylgdust með af áhuga. Við þökkum Jonnu fyrir mjög áhugaverða kynningu í tilefni Dags myndlistar og forsvarsmönnum þessa framtaks það tækifæri sem felst í að fá að kynnast viðfangsefnum og nálgun starfandi listamanna á svæðinu.