Nú göngum við í skólann eða hjólum. Átakið „Göngum í skólann“ hófst í dag en markmið átaksins er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar.
Átakinu er ætlað að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna en hreyfing vinnur m.a. gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Einnig að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.
Nemendur Glerárskóla eru mjög duglegir að ganga eða hjóla í skólann og það sama á við um starfsfólk skólans. Næstu daga vonumst við að enn fleiri bætist í hópinn og gangi eða hjóli í skólann.
Í tilefni átaksins var öllum nemendum og starfsfólki afhent endurskinsmerki, því blessað skammdegið læðist að okkur þessa dagana. Og munum öll, það er ekki nóg að eiga endurskinsmerki, það verður líka að nota það!