Skóladagurinn hefur verið ansi óvenjulegur hjá fjórum nemendum Glerárskóla nú í vikunni. Þau Alís Þóra, Dagur Pálmi og Jökull Máni úr 10. bekk og Sonja Katrín úr 9. bekk hafa setið á skólabekk í grunnskóla í Kaupmannahöfn.
Ferðalagið er styrkt af Erasmus+ og krökkunum fannst mjög spennandi að setjast á skólabekk með jafnöldrum sínum í öðru landi, skólaandann, áherslur í kennslu og félagslífi.
Að loknum skóladegi spásseruðu þau um gömlu höfuðborgina okkar og nutu lífsins eins og Íslendingar hafa löngum gert í borginni við sundin.
Þær Harpa Hermannsdóttir og Jónína Garðarsdóttir fóru utan með krökkunum og voru þeim til aðstoðar á ferðalaginu.


