Loftslag og loftslagsbreytingar
-áhrif á náttúru okkar-
Nemendur 9. bekkjar Glerárskóla og nemendur 7. – 10. bekkjar Hlíðarskóla munu taka þátt í verkefni á vegum Norden for Alle 9.-11. janúar. Þetta er gagnvirkt kennsluferli sem fer fram á netinu, og leggur áherslu á Norðurlöndin og nágrannatungumálin. Norden for Alle snýst ekki eingöngu um nágrannatungumálin heldur einnig um sögu, menningu og náttúru Norðurlandanna og síðast en ekki síst um nemendurna og daglegt líf þeirra í Norðurlöndunum. Viðfangsefnið að þessu sinni eru loftlagsmál, veðurfar, endurvinnsla og áhrif loftlagsbreytinga á náttúru okkar. Til að afla fanga hafa nemendur fengið fræðslu hjá Norðurorku og Gámaþjónustunni ásamt fleiru og munu þau kynna vinabekkjum sínum afrakstur sinnar vinnu með myndböndum og í samræðu. Eins munu nemendur gera gagnvirkar rannsóknir sem sýna áhrif loftlagsbreytinga í heiminum og fá að sjá rannsóknir annarrra nemenda. Rannsóknirnar sem við munum sýna fjalla um hækkun sjávarmáls, bráðnun jökla, útblástur koltvísýrungs, skýmyndun þar sem uppgufun og vetni bindast rykögnum, þensla við hita þar sem sameindir efna skiljast að, virkjun sólarorku og segulmögnun jarðar. Þegar Norden for Alle líkur munum við eiga samansafn af mörgum mjög áhugaverðum verkefnum sem nemendur hafa skilað inn og ekki síst vonum við að við getum lært og haft áhrif á loftlagsmál í framtíðinni.