Það er í senn hátíðleg og spennandi stund fyrir nemendur og starfsfólk þegar skólabyggingin fyllist af lífi eftir sumarleyfi, eins og gerðist í dag þegar Glerárskóli var settur.
Nemendum skólans hefur fjölgað nokkuð milli ára. Þeir eru nú 365 talsins, 35 nemendum fleiri en á síðasta skólaári. Starfsmenn skólans eru 70 talsins, þannig að alls vinna og starfa 435 manns á öllum aldri í Glerárskóla.
Sumarið var nýtt til endurbóta á húsnæði skólans sem voru löngu tímabærar. Ein af fjórum álmum byggingarinnar var endurnýjuð frá grunni. Áætlað er að þeim framkvæmdum ljúki í september. Þar til er nánast hvert einasta rými skólans notað til kennslu, s.s. bókasafn og félagsaðstaða nemenda. Aðrar álmur skólans verða endurnýjaðar ein af annarri, næstu þrjú árin.
Umfangsmiklar framkvæmdir hafa einnig staðið yfir við íþróttahús skólans og samkvæmt verkáætlun lýkur þeim framkvæmdum í nóvember. Íþróttakennarar skólans hafa því skipulagt útikennslu fyrstu vikur skólaársins.
Við erum öll full tilhlökkunar fyrir komandi skólaár, því það er margt að gerast í Glerárskóla.
Hægt er að skoða stærri útgáfur myndanna með því að smella á þær.