Fræðslu- og lýðheilsuráð Akureyrarbæjar veitti í gær viðurkenningar fyrir framúrskarandi skólastarf. Markmiðið með viðurkenningunum er að vekja sérstaka athygli á því sem vel er gert og hvetja þá sem fyrir valinu verða til þess að halda áfram því góða starfi sem þeir eru að vinna. Viðurkenningin er einnig staðfesting á að viðkomandi nemandi, starfsmaður, skóli er fyrirmynd annarra á því sviði sem viðurkenningin nær til.
Fimm úr Glerárskóla, nemendur og kennarar, fengu verðskuldaðar viðurkenningar, en þau eru:
Sveinn Leó Bogason og Karen Jóhannsdóttir kennarar sem fengu viðurkenningu fyrirskipulagningu og metnað í Harry Potter þemadögunum sem er bæði fjölbreytt og fellur vel að sýn Glerárskóla sem kjarnast í kenniorðum skólans; Hugur, hönd og heilbrigði. Verkefnið sem er skipulagt til nokkurra ára eflir samhug og liðsanda meðal nemenda þvert á aldurshópa. Námsgreinar eru samþættar og kennarar/starfsfólk vinnur saman þvert á allan skólann.
Inga Huld Pálsdóttir kennari sem fékk viðurkenningu fyrir fjölbreytta kennsluhætti, metnaðarfull verkefni og alúðarfestu gagnvart starfi sínu og nemendum en Inga Huld er einn helsti sérfræðingur skólans í uppeldisstefnunni „Jákvæður agi“ sem Glerárskóli fylgir.
Emelía Rán Eiðsdóttir, nemandi í 10. bekk, fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi hæfni í skapandi greinum en hún þykir hafa afar skapandi hugsun, framúrskarandi textaskrif og sérlega athyglisverða nálgun á verkefnaskilum
Guðbjörg Sóley Friðþórsdóttir, nemandi í 9. bekk, fékk viðurkenningu fyrir þroskað hugarfar, rökvísi og gagnrýna hugsun en verkefnavinna hennar þykir til fyrirmyndir. Hún gegnir einnig mikilvægu hlutverk í tækniteymi skólans.