Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Lög foreldrafélagsins

1. gr. Félagið heitir Foreldrafélag Glerárskóla og er heimili þess og varnarþing á Akureyri.

2. gr. Félagar geta þeir orðið, sem eru eða hafa verið foreldrar og forráðamenn nemenda skólans, kennarar við skólann svo og foreldrar og forráðamenn barna í Glerárhverfi sem ekki eiga kost á að sækja skólann.

3. gr. Tilgangur félagsins er:
a) að tryggja gott samband milli Glerárskóla og foreldra þeirra barna er þar stunda nám
b) að stuðla að framkvæmd ýmissa mála í þágu skólans og nemenda hans

4. gr. Tilgangi sínum hyggst félagið ná meðal annars með því:
a) að halda fundi þar sem fjallað er um ýmis uppeldisfræðileg efni
b) að veita aðstoð í daglegu starfi skólans og við félagsstarf og skemmtanir nemenda
c) að standa að eða styðja menningarlíf innan skólans svo sem bókmenntir og listir, eða sérhvað annað sem að gagni kann að koma fyrir skólann og nemendur hans

5. gr. Upphæð félagsgjalds skal ákveða á aðalfundi fyrir eitt ár í senn í samræmi við fjárhagsáætlun félagsins.

6. gr. Fimm menn skipa stjórn félagsins ásamt starfsmanni skólans. Stjórn skal kosin á aðalfundi með almennri kosningu þannig:
Formaður skal kosinn sérstaklega úr hópi foreldra og til eins árs í senn.
Fjórir skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir hvort ár.
Að öðru leyti en að framan greinir skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Stjórnin getur skipað nefndir til ýmissa sérstarfa. Stjórnin stýrir og ber ábyrgð á allri starfsemi félagsins og milli aðalfunda. Stjórnin skal skipa fulltrúa til að sitja kennarafundi, með málfrelsi og tillögurétt, og skal hann boðaður á sama hátt og stjórnarmenn.

7. gr. Félagið skal koma á fót bekkjarráði í hverjum bekk skólans. Í ráðið skal kosið á fundi að hausti, eigi síðar en 10. október ár hvert, í hverjum bekk fyrir sig.
Stjórn foreldrafélagsins skal setja starfsreglur fyrir bekkjarráðið. Bekkjarráðið skal ekki sinna klögumálum eða hafa afskipti af vandamálum, er upp kunna að koma milli einstakra foreldra og starfsmanna skólans.

8. gr. Aðalfundi skal halda eigi síðar en 10. október ár hvert, og skal hann vera boðaður skriflega með að minnsta kosti viku fyrirvara.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
a) Skýrsla formanns um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.
b) Gjaldkeri geri grein fyrir fjárhagsafkomu félagsins á liðnu starfsári, og leggur fram endurskoðaða reikninga.
c) Umræður og atkvæðagreiðsla um framkomnar skýrslur og reikninga félagsins.
d) Félagsgjald.
e) Lagabreytingar.
f) Kosning formanns.
g) Kosning annarra stjórnarmanna.
h) Kosning tveggja endurskoðenda.
i) Önnur mál.

9. gr. Ef 20 félagsmenn óska þess með undirskrift að fundur verði haldinn, er stjórninni skylt að verða við þeirri ósk og skal boða þann fund á sama hátt og aðalfund innan hálfsmánaðar frá því að krafan kemur fram.

10. gr. Lagabreytingar má aðeins gera á aðalfundi og þurfa tveir þriðju hlutar fundarmanna að samþykkja þær.

11. gr. Félagið má því aðeins leysa upp, að tveir þriðju hlutar félagsmanna greiði því atkvæði á aðalfundi. Skulu þá eignir félagsins renna til Glerárskólans.

12. gr. Lög þessi taka þegar gildi.

Samþykkt þannig breytt á aðalfundi 3. september 2014.
Aníta Jónsdóttir
Formaður