Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson kom í heimsókn til okkar í vikunni og las bæði fyrir nemendur í Rósenborg og Glerárskóla.
Bókin sem hann var að kynna heitir „Drengurinn með ljáinn“ og er fyrsta unglingabók Ævars. Áður hefur hann gefið út 30 bækur sem ætlaðar eru yngri lesendum og léttlestrarbækur sem ætlaðar eru nemendum sem búa við lestrarörðugleika.
Lestur Ævars Þórs féll vel í kramið hjá nemendum Glerárskóla sem hlustuðu einbeitt og oft opinmynnt á rithöfundinn fara á kostum. Eftir upplesturinn bauð Ævar krökkunum að bera fram spurningar og það stóð nú hvorki á spurningaregninu né á svörunum hjá rithöfundinum sem hafði á orði að nemendur Glerárskóla hafi verið sérlega áhugasamir og spurt margra vel ígrundaðra spurninga.
Við þökkum Ævari Þór kærlega fyrir komuna.