Eins og fram kemur í fréttabréfi til foreldra og forráðamanna nemenda Glerárskóla, sem sjá má á heimasíðu skólans, hefur verið staðfest að ráðist verðir í framkvæmdir við A-álmu Glerárskóla og hún endurbyggð á næstu tveimur árum.
Þetta gerir að verkum að nemendur í 8. – 10. bekk sinna námi sínu að megninu til í Rósenborg þar til framkvæmdum lýkur. Allt skipulag er að komast í rétt horf og reynum við að hnýta flesta lausa enda á komandi dögum.
Þar sem tíminn er knappur náum við ekki að hefja skóla hjá nemendum í 8. -10. bekk fyrr en miðvikudaginn 24. ágúst en skólasetning verður samt á sínum stað hjá nemendum 2. – 10. bekkjar mánudaginn 22. ágúst 2022 eins og sjá má í fréttinni hér að neðan.
Eins og gefur að skilja eigum við að sjálfsögðu eftir að reka okkur á eitthvað smálegt sem betur má fara þegar við höldum af stað inn í skólaárið, en þá leysum við það í sameiningu eins og best verður á kosið. Þrátt fyrir framkvæmdir og flutninga látum við faglega þáttinn í skólastarfinu ekki frá okkur. Kennarar vinna áfram að því að efla læsi og gera námsmat virkara, taka lykilhæfni inn í nám og mat á því, auk þess sem við vinnum að því að efla þátttöku nemenda í meðvitund á eigin námi. Við reynum okkar besta við að kenna nemendum Glerárskóla að taka ábyrgð á eigin lífi og gjörðum, leita lausna á verkefnum sem upp koma í lífi þeirra og sýna umhyggju og kærleika gagnvart hverjum öðrum. Til þess nýtum við jákvæðan aga sem reynst hefur okkur vel síðastliðin 14 ár.
Kennarar unglingastigi stóðu í flutningum í dag, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.