Þann 12. maí síðastliðinn efndi barna- og menntamálaráðuneytið til þátttökuráðstefnu barna á Akureyri. Á ráðstefnunni var litið á niðurstöður nýafstaðinnar kortlagningu ráðuneytisins á þátttöku barna á Íslandi, auk þess sem unnið var með niðurstöður Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem tók út stöðuna á réttindum barna á Íslandi á síðastliðnu ári. Með á ráðstefnunni voru sérfræðingar frá Child Rights Connect, sem eru félagasamtök í Genf sem vinna að þátttöku barna við fyrirtökur Barnaréttarnefndar SÞ. Þau sáu um létta þjálfun fyrir börn um réttindagæslu.
Niðurstöður ráðstefnunnar verða nýttar við gerð aðgerðaráætlunar tengdri evrópsku þátttökuverkefni, CP4Europe, og munu endurspeglast í innleiðingu á stefnunni um Barnvænt Ísland. Nemendur úr skólum frá hinum ýmsu stöðum mættu og tóku þátt.
Þrír nemendur úr Glerárskóla mættu á ráðstefnuna Tinna Sverrisdóttir (10. bekk), Hlynur Stefánsson (9. bekk) og Birkir Orri Jónsson (10. bekk). Hér að neðan er frásögn þeirra af ráðstefnunni og því sem þau gerðu:
Barnaráðstefna byggist á því að það koma krakkar víða um landið sem hittast, fjalla saman um barnasáttmálann og berjast fyrir réttum barna. Upplifun okkar á barnaþinginu sem var haldin 12. Maí í Rósenborg á Akureyri var skemmtileg og fræðandi á marga vegu. Við vorum skipt niður í hópa og lenti maður þá með krökkum úr öðrum skólum og þannig þurfti maður að kynnast þeim, spjalla saman og þannig urðu til mismunandi skoðanir og hugmyndir. Við byrjuðum að fá kynningu á deginum fengum svo fræðslu um The standard reporting cycle, skelltum okkur í leiki fengum hressingu og pizzu í hádeginu og þar inn á milli hófst verkefna vinnan. Allir hópar fengu spurningar og áttu að finna kosti til þess að breyta þeim á góðar vegu og til þess að auka réttindi barna. Mörg plaköt með allskonar hugmyndum voru gerð og allar kynningar voru teknar upp og skoðaðar af Ásmundi Einar Daðason sem er mennta og barnamálaráðherra íslands.