Fimmtudaginn 23. nóvember kl. 20:00 mun Skúli B. Geirdal, vera með opinn fyrirlestur í Síðuskóla fyrir foreldra, forsjáraðila og aðra sem umhugað er um velferð barna. Fyrirlesturinn ber heitið Algóritminn sem elur mig upp! Undirtitill fyrirlestursins er Búum börnum betra umhverfi á neti og samfélagsmiðlum.
Hið stafræna umhverfi er í stöðugri þróun og netnotkun verður sífellt stærri hluti af lífi barna og unglinga. Samhliða aukinni netnotkun eykst mikilvægi þess að allir læri á umferðarreglur netsins og hvernig eigi að skilja og greina það sem þar fer fram.
Á fyrirlestrinum mun Skúli fara yfir mikilvægi þess að vera læs á upplýsingar og miðla í nútíma samfélagi. Hvernig virka algóritmar samfélagsmiðlanna? Hvað þarf að hafa í huga varðandi samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og deilingu nektarmynda? Hvaða aldurstakmörk eru á samfélagsmiðlum og af hverju? Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlanefndar í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu. Sama dag mun Skúli Bragi heimsækja Glerárskóla og ræða þetta brýna mál við nemendur í sjötta bekk. Í byrjun næsta mánaðar heimsækir Skúli Bragi nemendum í fimmta og sjöunda bekk og nemendur á unglingastigi skólans. Við segjum nánar frá því þegar nær dregur.
Skúli Bragi er fjölmiðlafræðingur að mennt og starfar sem verkefnisstjóri miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd. Skúli stofnaði og heldur úti Tengslaneti um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Auk þess felst starf hans m.a. í stefnumótunarvinnu, alþjóðlegu samstarfi, fræðslustarfi og umsjón með rannsóknum nefndarinnar á miðlalæsi sem unnar eru í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu. Nefndinni er ætlað það lögbundna hlutverk að efla miðlalæsi almennings og miða því verkefni hans að því að ná til fólks á öllum aldri til að auka færni þess í að nota samfélagsmiðla og leitarvélar og vera gagnrýnið á það hvaðan upplýsingar koma. Skúli er þá einnig stundakennari í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.