Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Vatnsbrúsi sem minnir fólk á að drekka!

Tveir nemendur í 7. Bekk Glerárskóla, þeir Natan Dagur Fjalarsson og Viktor Jens Gunnarsson komust í úrslit í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og munu í framhaldinu fara í vinnusmiðjur til Reykjavíkur og í síðan í úrslitakeppnina sjálfa.

Nemendur sjöunda bekkjar lögðu höfuðið í bleyti með kennurum sínum og veltu fyrir sér nýsköpunarverkefnum sem heyra undir náttúrufræði. Nemendurnir voru hvattir til að hugsa út fyrir boxið og finna hvaða þarfir eru í samfélaginu. Þeir Natan Dagur og Viktor Jens gerðu það svo sannarlega og unnu hugmyndina sína saman en hún er Smart brúsi, vatnsbrúsi sem minnir fólk á að drekka nóg.

Hugmynd strákanna er ein af 25 hugmyndum grunnskólanemenda um land allt sem komst áfram og það verður fróðlegt að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og hefur verið haldin, óslitið síðan. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.

Þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og annarra samstarfsaðila. Í kjölfarið er haldið lokahóf þar sem  forseti Íslands afhendir stórglæsileg verðlaun og viðurkenningarskjöl.

Eigandi NKG er Mennta- og menningarmálaráðuneytið en Menntavísindasvið Háskóla Íslands sér um rekstur keppninnar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banka, Samtök Iðnaðarins, ELKO, IKEA, grunnskóla o.fl. aðila.

Tilgangur og markmið keppninnar er að

  • Virkja sköpunarkraft barna í landinu
  • Gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir
  • Efla og þroska frumkvæði þátttakenda  og styrkja þannig sjálfsmynd þeirra
  • Efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og vekja athygli á hugviti barna í skólum og atvinnulífi