Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Jólasveinahúfa á morgun, miðvikudag

Jólasveinahúfa á morgun, miÁ morgun, miðvikudaginn 11. desember, mætum við öll með jólasveinahúfu í skólann og bjóðum þar með fyrsta jólasveininn velkominn til byggða, en það er Stekkjastaur sem kemur aðfaranótt fimmtudags með eitthvað í skóinn.

Íslensku jólasveinarnir eru 13 talsins en uppruna hins rauðklædda jólasveins má rekja til heilags Nikulásar sem er sagður hafa verið biskup í borginni Mýra í Tyrklandi á 4. öld e.Kr. Nikulás var meðal annars verndardýrlingur sæfarenda, kaupmanna, menntasetra og barna. Löngu seinna varð hann þekktur sem gjafmildur biskup, klæddur purpuralitaðri kápu með mítur á höfði, sem deildi út gjöfum til bágstaddra en einkum til barna. Lúterstrúarmenn vildu ekki láta kaþólskan dýrling sinna þessu og bjuggu til sviplíkan karl sem þeir kölluðu Afa Frosta.

Á 17. öld bárust siðir og sagnir um Nikulás með hollenskum innflytjendum til Ameríku. Gælunafn hans á hollensku var Sinterklaas og í Ameríku fékk hann á 19. öld nafnið Santa Claus. Teiknarar gerðu hann að blendingi af Nikulási og Afa Frosta, klæddu hann í skærrauðan jakka, verulega styttri en purpurakápu Nikulásar, og í rauðar buxur, hvort tveggja með hvítum loðkanti. Einnig fékk hann rauða húfu í staðinn fyrir mítur – jólasveinahúfuna, eins og þá sem við ætlum að vera með á morgun.

Þessi rauðklæddi karl barst síðan um víða veröld, þekktur sem góðlegur hvítskeggjaður karl sem deildi út gjöfum til barna. Oftast var hann sagður frá norðlægum slóðum, kannski vegna þess hve hlýlega hann var klæddur. Þá var við hæfi að setja fyrir hann hreindýrasleða í norðri.

Íslensku jólasveinarnir eiga sér rætur í íslenskum þjóðsögum og eru því af allt öðrum uppruna en Santa Claus. Þeirra var fyrst getið í Grýlukvæði frá 17. öld sem eignað er séra Stefáni Ólafssyni í Vallanesi. Þar eru þeir sagðir börn Grýlu og Leppalúða. En þekktastir eru þeir úr kvæði Jóhannesar úr Kötlum en þannig orti hann um Stekkjastaur:

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.