Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Sól og PISA

Dagurinn var sérlega bjartur og fagur. Flestir bekkir nutu þess að fara út með kennurum sínum, leika sér, dansa og njóta sólar nema krakkarnir í tíunda bekk. Þeir sátu yfir tölvum í allan morgun og glímdu við PISA próf sem er alþjóðleg könnun á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem mælir lesskilning 15 ára nemenda og læsi þeirra á stærðfræði og náttúruvísindi á þriggja ára fresti.

PISA könnunin sem nær til yfir 80 þjóða er eina alþjóðlega samanburðarrannsóknin á frammistöðu menntakerfisins sem fram fer hér á landi. Markmiðið er að kanna hvort nemendur við lok skyldunáms hafi öðlast þá þekkingu og færni sem gerir þeim kleift að taka virkan þátt í samfélaginu og stuðla að farsælli áframhaldandi skólagöngu. Stuðst er við efni sem finna má í aðalnámskrám um allan heim og leggur PISA sérstaka áherslu á að meta hvort nemendur geti yfirfært það sem þeir læra í skóla yfir á ný verkefni og nýjar aðstæður. Til dæmis að kanna getu þeirra til samvinnu við þrautaúrlausnir, hæfni til að greina, rökstyðja og miðla upplýsingum á meðan þeir skoða, túlka og leitast við að leysa verkefni og kanna hæfni tengda almennri færni, sköpunargáfu og frumkvæði.

Í PISA 2022 eru auk þess lögð fyrir verkefni sem reyna á skapandi hugsun nemenda, meðal annars í gegnum skriflega og myndræna tjáningu. Auk þess að veita áreiðanlegar upplýsingar um þekkingu og færni nemenda á tilteknum sviðum náms, veitir PISA afar mikilvægar upplýsingar um viðhorf skólastjóra til skólastarfsins og viðhorf nemenda, áhuga og venjur tengdum námi sem mikilvægt er fyrir fræðsluyfirvöld að geta tekið mið af við framkvæmd og þróun skólastarfs til að stuðla að farsælli menntun og velferð nemenda.

Í fyrirlögninni núna er auk þess lagt mat á áhrif heimsfaraldursins á nám og líf nemenda með sérstökum spurningalista. Hann nýtist meðal annars til að fá heildarsýn á það hvaða áhrif fjarvera eða breytt kennslufyrirkomulag hefur haft á þekkingu, færni og líðan nemenda.