Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Rís þú unga Íslands merki!

Þríliti fáninn (hvíti, rauði og blái) var vígður þjóðfáni Íslands, hins frjálsa og fullvalda íslenska ríkis, sunnudaginn 1. desember 1918 og hann var dregin að húni við Glerárskóla í morgun, á fullveldisdaginn. Textinn hér að neðan er byggður á grein sem herra Pétur Sigurgeirsson biskup skrifaði og birtist í Morgunblaðinu 17. júní 2006.

Einar Benediktsson skáld var, eins og kunnugt er, mikill hvatamaður þess að íslenski fáninn yrði þannig gerður: Hvítur kross á bláum feldi. Þegar á reyndi að þessi yrði gerð fánans kom í ljós að hann líktist of mikið gríska fánanum og reyndar þeim sænska líka, til þess að sú hugmynd næði fram að ganga. Úr því bætti Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður.

Á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur þann 27. september 1906 lagði hann fram og sýndi mynd af nýjum krossfána með þeirri breytingu að inni í þeim hvítbláa miðjum var nú kominn rauður kross. Þar með voru komnar tvær gerðir, hinn tvíliti og þríliti fáni fyrir Ísland. Deilt var lengi um þessar tvær fánagerðir, bæði utan þings og innan.

En áfram miðaði að langþráðu takmarki. Hin þrílita fánagerð varð sérfáni og siglingafáni Íslendinga.

Dagurinn rann upp sunnudaginn 1. desember 1918, þegar sambandslögin gengu í gildi og Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Fjölmennt var fyrir framan Stjórnarráðshúsið, íslenski fáninn var dreginn að húni. Af þrepum hússins flutti settur forsætisráðherra, Sigurður Eggerts, ræðu til mannfjöldans og sagði þá m.a.: „Og í gær hefur konungurinn gefið út úrskurð um þjóðfána Íslands, sem blaktir frá því í dag yfir hinu íslenska ríki… Fáninn er tákn fullveldis vors… Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna, sem þjóðin á fegurstar, hvert stórverk sem unnið er af oss, eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfum úti í baráttu við brim og úfnar öldur, eða á svæði framkvæmdanna, eða í vísindum og fögrum listum. Því göfugri, sem þjóð vor er, þess göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar… Vér biðjum alföður að styrkja oss til að lyfta fánanum til frægðar og frama…“

Á Stjórnarráðshúsinu blakti íslenski fáninn við hún í fyrsta skipti sem þjóðfáni hins íslenska frjálsa og fullvalda ríkis. Þannig fór það saman – vígsludagur þjóðfánans og fullveldisdagurinn.