Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

GLERÁRSKÓLI HÓF BARÁTTUNA GEGN MATARSÓUN Á NORÐURLÖNDUM

Glerárskóli á Akureyri var fyrsti skólinn á Norðurlöndunum til að glíma við Baráttuna gegn matarsóun – sem er hluti af Stóru norrænu loftslagsáskoruninni í ár. Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og þróað af Sambandi Norrænu félaganna fyrir norrænu námsgáttina WWW.NORDENISKOLEN.ORG

Er einhver munur á því að henda kjúklingabeinum og kjötinu af beinunum? Hvers vegna henti einn bekkur meiri mat en annar? Þessar spurningar eru meðal þeirra sem hljómað hafa í frímínútum síðastliðnar vikur í Grænfánaskólanum Glerárskóla. Þar vigtuðu nefnilega allir tíu árgangar skólans matarleifar sínar í eina kennsluviku auk þess sem eldri nemendur sökktu sér einnig í nýtt fræðsluefni um matarsóun. Viðburðir og verkefni vikunnar hafa vakið nemendur til umhugsunar um margvísleg efni og segjast þeir nú hafa breytta afstöðu til matar og umgangast hann af meiri virðingu. „Ég hugsa bara: ætla ég að klára þetta? Biðja bara frekar um minna heldur en meira“, segir Viktor Helgi Gunnarsson nemandi í 6. bekk Glerárskóla.
Meginmarkmið Baráttunnar gegn matarsóun er að vekja bæði kennara og nemendur til umhugsunar um matarsóun: í hverju hún felst, hvaða áhrif hún hefur á umhverfið og hvað hægt sé að gera til að draga úr henni.

Matarsóun víða til umfjöllunar
Samhliða þátttöku Glerárskóla í matarsóunarverkefninu má nefna forrannsókn sem unnin var af Landvernd í samstarfi við Reykjavíkurborg sem gekk út á að kanna umfang matarsóunar á reykvískum heimilum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að heimili í Reykjavík hendi á hverju ári í það minnsta 5.800 tonnum af mat og drykkjarvöru. Með forrannsókninni fylgir Ísland fordæmi hinna Norðurlandanna við að varpa ljósi á umfang matarsóunar á Norðurlöndunum og hvernig sé hægt að draga úr slíkri sóun.
Umfjöllun um vandamál tengd matarsóun hefur aukist til muna, ekki síst í tengslum við COP21 – loftslagsráðstefnuna sem haldin er í París um þessar mundir. Umtalið er einnig samofið áherslunni á kjötframleiðslu, sem er einn stærsti áhrifavaldur loftslagsbreytinga, sem og vaxandi áhyggjum yfir loftslaginu og hlýnun jarðar.

Verið með í Baráttunni gegn matarsóun
Þegar hafa rúmlega 30 íslenskir bekkir skráð sig til leiks í Baráttunni gegn matarsóun síðan verkefninu var ýtt úr vör þann 11. nóvember. Hins vegar er mögulegt að gerast þátttakandi allt fram til 23. mars 2016. Allir sem taka þátt eiga möguleika á að vinna 95.000 kr. (5000 DKK) í happdrætti og verða dregnir út vinningshafar í sérhverju Norðurlandanna.
Kennarar geta skráð sig endurgjaldslaust á heimasíðunni NORDENISKOLEN.ORG/IS, þar sem einnig má nálgast nýtt fræðsluefni fyrir 7.-10. bekk um auðlindir og hráefni, ásamt verkefnum því tengdu – sem nota má eftir hentugleikum. Fræðsluefnið er aðgengilegt á fimm Norðurlandamálum og gefur möguleika á einstökum umræðum þvert á Norðurlöndin.

Í tilefni þátttöku Glerárskóla í Baráttunni gegn matarsóun leit Ríkissjónvarpið í heimsókn: hér má sjá frá heimsókninni ásamt umfjöllun RÚV um niðurstöður forrannsóknarinnar varðandi matarsóun reykjvískra heimila.