Settur hefur verið hnappur á heimasíðu skólans sem opnar beinan aðgang að Ábendingalínu Barnaheilla. Þar er hægt að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu sem varðar börn eða er beint gegn börnum og unglingum undir 18 ára aldri.
Ábendingalínan er ætluð bæði börnum og fullorðnum. Hún er aldursskipt fyrir 14 ára og yngri, 15-17 ára og svo 18 ára og eldri. Á Alþjóðlega netöryggisdeginum, 11. febrúar var nýrri kynningarherferð Barnaheilla á Ábendingalínunni ýtt úr vör. Hin nýja kynningarherferð byggir á slagorðunum „þú getur hjálpað okkur að eyða því versta“.
Til Ábendingalínunnar er hægt að tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni sem varðar börn á netinu, svo sem ofbeldi gegn börnum, kynferðislegt eða annars konar ofbeldi, tælingu, áreitni, hatursorðræðu, einelti og fleira. Ábendingalína Barnaheilla sem rekin er í samstarfi við Ríkislögreglustjóra, er hluti af SAFT verkefninu, ásamt Heimili og skóla og Rauða krossinum sem rekur 1717, hjálparsímann. Verkefnið nýtur styrkja frá Evrópusambandinu og fleiri aðilum.