Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00, frá mánudegi til fimmtudags en frá 07:45 til 14:00 á föstudögum.
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga frá 10:00 til 12:00.

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Brautskráning nemenda

Það var hátíðleg en um leið skemmtilegt stund þegar nemendur úr 10 bekk voru brautskráðir frá Glerárskóla í dag. Athöfnin fór fram í Glerárkirkju að viðstöddum aðstandendum nemenda og starfsfólki skólans.

Við athöfnina fór Eyrún Halla Skúladóttir skólastjóri meðal annars yfir skólaárið sem sannarlega má segja að hafi verið óvenjulegt fyrir margra hluta sakir þar sem Covid veiran kallaði á að skólastarfið var endurskipulagt í einu vetfangi. Framkvæmdir sem nú eru hafnar við d-álmu skólans kölluðu á mikla uppstokkun og útsjónarsemi sem gekk upp því í skólanum er „dásamlegt starfsfólk og nemendur og við erum stolt af því hversu vel allir standa saman og sýna einhug þegar á reynir. Það má ekki gleyma foreldrahópnum því án þeirra stuðnings og samvinnu væri erfiðara að framkvæma alla hluti,“ eins og Eyrún sagði í ræðu sinni.

Við ungmennin sem brautskráðust sagði skólastjórinn meðal annars, „þið unga og glæsilega fólk haldið út í ókannað og spennandi líf þar sem fjölmargir möguleikar bíða ykkar. Þá skiptir miklu máli að þið takið meðvitaðar ákvarðanir um þær leiðir sem þið veljið í lífinu en þið þurfið jafnframt að leggja áherslu á það sem virkilega skiptir máli í lífinu, til að mynda vináttubönd, fjölskyldutengsl, kurteisi, virðing og samkennd.“

Stefán Haukur Björnsson Waage, fyrrverandi nemandi í 10-SM, flutti ávarp fyrir hönd 5 ára útskriftarnema úr Glerárskóla við brautskráninguna og þær Alma Sól Valdimarsdóttir og Lea Björk Fannarsdóttir, formenn nemendaráðs ávörpuðu samkomuna fyrir hönd nemenda úr 10. bekk. Ragnhildur Tinna Gestsdóttir útskriftarnemi lék á víólu og undir lok samkomunnar stóðu gestir á fætur og sungu Glerárskólasönginn. Að athöf lokinni var bauð skólinn upp á kaffiveitingar.

Eftirtaldir nemendur hlutu viðurkenningar við brautskráninguna:
Bríet Björk Pálsdóttir var valin íþróttastúlka ársins og Kristján Gunnþórsson var valin íþróttadrengur ársins.

Viktor Helgi Gunnarsson fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í dönsku. Hann fékk einnig fékk viðurkenningu fyrir að vera góður félagi, farandbikar sem gefinn var skólanum í minningu Gísla heitins Ólafssonar húsvarðar sem lést árið 2011.

Alma Sól Valdimarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir kraftmikið og ábyrgt starf í félagsmálum.

Viðurkenningu fyrir bestan samanlagðan námsárangur í 10. bekk hlutu tveir nemendur að þessu sinni, þær Bríet Björk Pálsdóttir og Hrafntinna Jóhannsdóttir.

Hér eru fáeinar myndir frá brautskráningunni.