Glerárskóli

Sími: 461 2666
Skrifstofan er opin virka daga á starfstíma skólans
frá 07:45 til 15:00
Í fríum nemenda er skrifstofan opin virka daga 10:00-12:00

Skóladagatal

Facebook síða Glerárskóla

Félagsmiðstöð

Hnappur himnaríki

Skólaárið 2018-2019

Í Glerárskóla er ein af fimm félagsmiðstöðvum Akureyrar. Félagsmiðstöðin í Glerárskóla heitir Himnaríki og er staðsett í kjallara skólans (inn af matsalnum). Í Himnaríki eru allir velkomnir og viljum við að félagsmiðstöðin sé fyrir alla.
Unglingastig

Himnaríki er opið tvö kvöld í viku fyrir 8. – 10. bekk, mánudags- og fimmtudagskvöld klukkan 20-22. Á þriðjudagskvöldum eru þemakvöld í þorpinu þar sem við erum með sameiginlegar opnanir með Dimmuborgum (Giljaskóla), Stjörnuríki (Oddeyrarskóla) og Undirheimum (Síðuskóla). Þemakvöldin eru auglýst sérstaklega en það skiptist á milli skóla eftir þemum.

Starfsmenn Himnaríkis eru Dagný Björg Gunnarsdóttir forvarna- og félagsmálaráðgjafi (s: 460-1241/869-3666, póstfang dagnybjorg@akureyri.is) og Ingvi Þór Sigurðsson, frístundaleiðbeinandi. Svo er ný viðbót við starfið sem er í höndum Ólafíu Kristínar Guðmundsdóttir og Arnars Geirs Halldórssonar en þau sjá um félagsmiðstöðvastarfið fyrir miðstig. Nánar um það hér fyrir neðan. Á hverri opnun eru alltaf tveir starfsmenn.

Starf félagsmiðstöðvarinnar skiptist í opið starf, skipulagt starf, klúbbastarf og sumarvinnu. Auk þess eru fjölmargir sameiginlegir stærri viðburðir eins og til dæmis söngkeppni, hönnunarkeppni Félak, stuttmyndahátíðin Stulli, spurningakeppni og ferðalög á viðburði Samfés – samtök félagsmiðstöðva á Íslandi. Bæði hönnunarkeppnin og söngkeppnin eru undankeppnir fyrir stærri viðburði sem haldnir eru á vegum Samfés og aðalkeppnir haldnar í Reykjavík.

Mikið samstarf er á milli félagsmiðstöðva á Akureyri og starfa þær sem ein heild. Það gefur tækifæri á meiri opnun í gegnum klúbbastarf.

Félagsmiðstöðvarnar eru einnig með valgrein í skólunum sem heitir félagsmálafræði. Markmiðið með valgreininni er að nemendur geti skipulagt starfsemi félagsmiðstöðvarinnar og félagslíf skólans. Í valgreininni er farið í ýmsa lífsleikni, viðburðastjórnun og eflingu sjálfsmyndar og ávallt markmið að fá unglingana til að geta staðið með eigin skoðunum.

Miðstig

Kraftmikið félagsmiðstöðvastarf er starfrækt fyrir börn á miðstigi í grunnskólum Akureyrar og er það á vegum FÉLAK (Félagsmiðstöðvar Akureyrar). Arnar Geir Halldórsson og Lóa Guðmundsdóttir hafa umsjón með félagsmiðstöðvastarfinu fyrir 5.-7.bekk í vetur (netföng eru arnarh@akureyri.is og olafiag@akureyri.is).

Meðal þess sem er í boði eru opin hús, klúbbastarf, 7.bekkjar opnanir auk stærri viðburða. Við munum láta vita af okkur með fréttabréfi í hverjum mánuði þar sem farið er yfir hvað er á döfinni og hvetjum við foreldra til að vera dugleg að hvetja krakkana til að taka þátt í skemmtilegu félagsstarfi.

Í boði eru tveir klúbbar, annars vegar er það M65 þar sem 5. og 6.bekkur er saman og hinsvegar M7 þar sem 7.bekkur er sér. Klúbbastarfinu er skipt upp í tvö tímabil. Klúbbarnir eru frá klukkan 14:00-15:00 á miðvikudögum. Klúbbarnir eru auglýstir sérstaklega en þeir eru staðsettir víðsvegar um skólann.

Opin hús verða annan hvern fimmtudag í vetur frá klukkan 14:40-16:10. Opin hús eru í Himnaríki, það er inn af matsalnum Einnig eru börnin velkomin á opnanir í öðrum félagsmiðstöðvum ef þau komast ekki á þessum tíma. Á miðstigi eru einnig ýmsir stærri viðburðir þar sem krakkar í öllum skólum bæjarins geta komið saman og dæmi um það eru danskeppni, spurningakeppni, körfuboltamót og þar fram eftir götunum. Þessir stærri viðburður eru auglýstir þegar að þeim kemur, bæði í skólunum og í fréttabréfum til foreldra.

Það er mál margra að gott félagslíf geti eflt mjög allt starf í skóla og aukið félagsþroska nemenda umfram það sem venjulegt skólahald eitt getur gert. Markmið félagsmiðstöðvarinnar er að nemendur öðlist sterkari og jákvæðari sjálfsmynd. Rauði þráðurinn í starfi félagsmiðstöðvanna á Akureyri er forvarnarstarf í bæði þrengsta og víðasta skilningi þess orðs.

Starfsemin er ekki á vegum skólans en starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar á gott og mikið samstarf við kennara og stjórnendur skólans um ýmsa þætti sem snerta félagslega þátttöku nemenda.

Á heimasíðu Rósenborgar er einnig að finna upplýsingar um félagsmiðstöðvar